Íslensku bankarnir Kaupþing og Glitnir, sem nú eru í gjaldþrotameðferð, tóku þátt í að lána Alfesca ásamt öðrum evrópskum bönkum. En framlag þeirra nam einungis 30% af heildarupphæð lánsins og er framhald á samstarfinu til endurskoðunar, samkvæmt upplýsingum frá félaginu.

En þar sem Alfesca hefur aðgang að lánveitingum hjá öðrum bönkum sem þátt tóku í sambankaláninu hefur staða Kaupþings og Glitnis ekki áhrif á greiðsluhæfi félagsins.

Að teknu tilliti til þessa og sterkrar fjárhagsstöðu félagsins eru engin vandkvæði á fjármögnun rekstarins.

Þetta kemur fram í greinargerð um bein og óbein áhrif á rekstur og efnahag Alfesca í því óvenjulega ástandi sem nú ríkir á fjármálamörkuðum, en Fjármálaeftirlitið fer fram á að allir útgefendur hlutabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi, birti slíka greinargerð.