Spænska ríkið mun leggja Bankia bankanum til 19 milljarða evra, um 3.100 milljarða króna. Með framlaginu mun ríkið eignast bankann að fullu.

Aðeins eru þrjár vikur síðan spænska ríkið lagði 4,47 milljarða evra í bankann, þriðja stærsta banka Spánar, og eignaðist 45% hlut í honum. Þá var talið að ekki þyrfti að aðstoða bankann frekar.

Á skömmum tíma hefur ástand bankans versnað mjög. Til marks um vonda stöðu bankans setti matsfyrirtækið Standard & Poors skuldabréf bankans í ruslflokk í gær.

Einnig hafa endurskoðendur bankans, endurskoðunarfyrirtækið Deloitte, neitað að staðfesta ársreikning bankans fyrir síðasta ár. Bendir það til að reikningurinn gefi ekki rétta mynd af rekstri hans og efnahag.

Hlutabréf bankans hrundu í verði í mánuðnum. Í byrjun maí var gengi bankans í kringum 2,6 en var 1,57 við lokun markaða í gær. Er það um 40% lækkun.

Bankinn hefur nú verið afskráður úr kauphöllinni samfara yfirtöku ríkisins.

Aðgerðin er stærsta björgun banka í sögu Spánar. Frá árinu 2010 hefur spænska ríkið lagt bönkum í landinu tæpum 40 milljörðum evra, sem svarar  til 6.500 milljarða króna í formi hlutafjár.