Helsta ástæða þess hve vöruskiptahalli minnkar mikið milli mánaða er aukinn útflutningur en Hagstofan birti í morgun bráðabirgðatölur þar um.

Alls voru fluttar út vörur fyrir 31,2 milljarða króna í síðasta mánuði, og jafngildir það 43% aukningu milli mánaða á föstu gengi. Þó var útflutningur í síðasta mánuði um 15% minni en á sama tíma í fyrra, miðað við sama gengi, en þess er að geta að útflutningur var óvenju mikill í marsmánuði fyrir ári. Hagstofan getur þess að stóraukinn álútflutningur eigi verulegan hluta að máli í aukningu útflutnings nú.

Í Morgunkorni Glitnis er lögð fram áætlun þar sem þeir gera ráð fyrir að þau 65.000 tonn sem álver á Íslandi afkasta nú í mánuði hverjum skili 12 - 13 milljörðum króna í gjaldeyristekjur miðað við gengi krónu og álverð í dag. Greining Glitnis tekur fram að þetta er gróf áætlun. Á móti kemur þó vitaskuld innflutningur á súráli og rafskautum til álframleiðslunnar, og má gera ráð fyrir að innflutningur aðfanga vegna álframleiðslu sé nálægt þriðjungi af útflutningsverðmæti hennar.