Hlutafjárútboð kínverska netfyrirtækisins Alibaba fór fram í New York á föstudaginn. Aflaði fyrirtækið 25 milljarða bandaríkjadollara í útboðinu og sló því met sem stærsta hlutafjárútboð sögunnar.

Fyrra metið átti Agricultural Bank of China sem aflaði 22,1 milljarði bandaríkjadollara þegar það skráði sig í kauphöllina í Hong Kong árið 2010. Því hafði verið spáð að Alibaba gæti aflað 22 til 25 milljörðum í hlutafjárútboðinu og stóðst það því vel væntingar.

Hlutir voru seldir til fjárfesta á 68 dollara á hlut, en hæst náði verðið í 99 dollara á fyrstu mínútum útboðsins. Við lok dagsins var verðið 93,89 dollarar og hafði þá farið upp um 38%.