Alþingi ræðir frumvarp sem heimilar greiðslur til starfsmanna Straums og Sparisjóðabankans

Alþingi var rétt í þessu að samþykkja að frumvarp, sem heimilar skilanefndum fallinna fjármálastofnana að greiða laun starfsmanna, þ.m.t. í uppsagnarfresti, og innlán sem veittur var forgangsréttur með neyðarlögunum sl. haust, gangi til efnahags- og viðskiptanefndar eftir 2. umræðu. Álfheiður Ingadóttir, formaður nefndarinnar, sagði á Alþingi rétt í þessu að frumvarpið yrði tekið fyrir á nefndarfundi í fyrramálið.

Í ræðu sinni sagði Álfheiður að málið snerist aðallega um að skilanefndir Straums og Sparisjóðabankans gætu greitt laun fyrrverandi starfsmanna. Skilanefndir fá fyrrgreinda heimild með þeim skilyrðinum að víst sé að nægilegt fé sé til að greiða að fullu upp kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.