*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Fólk 12. nóvember 2008 13:45

Alþingismenn fá gefins bók um hagfræði

Ritstjórn

Ökonomía, félag hagfræðinema við Háskóla Íslands, hefur ákveðið í tilefni 20 ára afmælis hagfræðikennslu í háskólanum, að færa öllum alþingismönnum eintak af bókinni Hagfræði í hnotskurn að gjöf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ökonomíu, félagi hagfræðinema við HÍ.

Bókin er eftir Henry Hazlitt og kemur er nú endurútgefin í þýðingu Haraldar Johannessen, ritstjóra Viðskiptablaðsins. Bókin kom fyrst út árið 1946 og nefnist á  frummálinu Economics in One Lesson.

Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál (RSE) gaf bókina út í vikunni.

„Hagfræðinemar vilja með þessu benda á mikilvægi þess að sú grundvallarhugsun, sem birtist í bókinni, sé leiðarljós við stefnumótun og ákvarðanatöku á Alþingi,“ segir í tilkynningunni.

Þá vísar félagið til orða höfundar: „Hagfræðin felst í því að líta ekki aðeins á skammtímaáhrif stefnu eða ákvarðana heldur einnig á langtímaáhrifin, og að skoða afleiðingarnar ekki bara fyrir einn hóp heldur alla hópa.“

Í tilkynningunni kemur fram að þetta er klassískt rit um um grundvallaratriði hagfræðinnar, ritað á alþýðlegan hátt og á jafnmikið erindi í dag og þegar það kom fyrst út.

„Hazlitt var blaðamaður, sjálfmenntaður í hagfræði og talinn hafa til að bera framúrskarandi skilning á hagfræði, sem honum var einkar lagið að setja fram á máli sem allir skildu, lærðir sem leikir,“ segir í tilkynningunni.

„Stjórn Ökonomíu telur að þessi viðhorf eigi sérstakt erindi við kjörna fulltrúa á Alþingi nú, því hætta sé á skammtímaviðhorfum og sérhagsmunagæslu við erfiðar aðstæður eins og þær sem nú eru uppi í íslensku samfélagi.“

Stjórn nemendarfélagsins mun afhenda forseta Alþingis 63 eintök bókarinnar á skrifstofu hans miðvikudaginn 12. nóvember kl.15:30.