Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmaður, sem varði kærendur í héraði og Hæstarétti, telur að álit Mannréttindanefndarinnar sé bindandi fyrir íslenska ríkið. Í grein í Morgunblaðinu 31. janúar sl. færir hann fyrir því þau rök að íslenska ríkið sé aðili að Alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, og hafi einnig fullgilt valfrjálsa bókun við samninginn, þar sem það viðurkenni lögsögu Mannréttindanefndarinnar til að fjalla um kærur frá einstaklingum vegna meintra brota á samningnum. Magnús segir að tilgangur íslenska ríkisins með því að gerast aðili að samningnum og fyrrnefndri valfrjálsri bókun verði ekki túlkaður á annan veg en þann að ríkið skuldbindi sig til að fara eftir álitum Mannréttindanefndarinnar og fullnægja þeim.

Þá segir Magnús að þótt Mannréttindasáttmáli Evrópu hafi ekki haft lagagildi á sínum tíma hafi íslenska ríkið talið sig vera skuldbundið samkvæmt honum að þjóðarrétti og breytt réttarfarslögum sínum í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Evrópu í máli Jóns Kristinssonar. Um hliðstæðu sé núna að ræða, þar sem Alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hafi ekki lagagildi. „Sómakært vestrænt lýðræðisríki, eins og hið íslenska, verður að vera sjálfu sér samkvæmt í þessum efnum og getur ekki verið þekkt fyrir annað en að fara einnig eftir áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í því máli, sem hér er til umræðu. Annað myndi flekka orðstír þjóðarinnar [...]“ Magnús leggur til að kærendur fái skaðabætur fyrir miska og fjártjón, auk þess sem gerðar verði breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, þannig að farin verði svokölluð fyrningarleið á 10-15 árum og veiðiheimildir boðnar upp eftir það.