(SKIP.IS) Á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í gær var samþykkt svonefnd ,,St. Kitts og Nevis yfirlýsing " með 33 atkvæðum gegn 32. Í yfirlýsingunni sem samþykkt var um kl. 23 að íslenskum tíma, kemur meðal annars fram að nýta beri hvalastofna með sjálfbærum hætti á grunni vísindaráðgjafar og að bann við hvalveiðum í atvinnuskyni sé óþarft.

Þetta er í fyrsta sinn í fjölda ára sem meirihluti Alþjóðahvalveiðiráðsins samþykkir ályktun til stuðnings sjálfbærum hvalveiðum í atvinnuskyni. Meirihluti hvalveiðiráðsins er þó ekki nógu stór til þess að ákvarða kvóta til veiða. Slíkt krefst samþykkis ¾ hluta, 75 prósent, greiddra atkvæða. Samþykkt ályktunarinnar felur á hinn bóginn í sér breytta pólitíska stefnu fyrir Alþjóðahvalveiðiráðið, þar sem andstæðingar hvalveiða eru nú ekki í meirihluta í ráðinu.

Í yfirlýsingunni er ennfremur vakin athygli á að hlutverk Alþjóðahvalveiðiráðsins sé að tryggja ábyrga stjórnun við hvalveiðar, en ekki að afstýra hvalveiðum án tillits til stærðar hvalastofna. Bent er á að vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins hafi ákvarðað að ýmsir hvalastofnar séu stórir og að sjálfbærar veiðar á þeim séu mögulegar. Þá er það nefnt í ályktuninni að hvalir éti mikið af fiski og því beri að skoða hvalveiðar í víðari samhengi við hugmyndir um vistfræðilega nálgun við nýtingu auðlinda, sem sé orðin alþjóðlega viðurkennt viðmið. Yfirlýsingin nefnir ennfremur að óviðunandi sé að félagasamtök beiti hótunum til þess að hafa áhrif á stefnu ríkisstjórna í málum er varða fullveldisrétt þjóða til þess að nýta auðlindir sínar. Loks er því lýst yfir að bjarga megi starfsemi Alþjóðahvalveiðiráðsins með því einu að hrinda í framkvæmd verndunar- og stjórnunaraðferðum sem heimili takmarkaðar og sjálfbærar hvalveiðar.