Allar helstu fjármálastofnanir Bandaríkjanna nema ein voru í verulegri gjaldþrotahættu haustið 2008.  Þetta kemur fram í nýrri skýrslu nefndar Bandaríkjaþings sem rannsakaði fjármálakreppuna (e.  Financial Crisis Inquiry Commission).

Byggist þessi staðhæfing á viðtali nefndarinnar við Ben Bernanke seðlabankastjóra Bandaríkjanna í nóvember 2009. Er þetta í fyrsta sinn sem hlutar úr viðtalinu eru opinberaðir.

Að mati Bernanke seðlabankastjóra Bandaríkjanna var aðeins 1 af 13 helstu fjármálastofnunum Bandaríkjanna ekki í verulegri hættu á að falla. Bernanke segir að jafnvel Goldman Sachs hafi verið í hættu. Ekki er upplýst í skýrslunnii hverjar þessar 13 helstu fjármálastofnanir eru utan Goldman Sachs.

Í skýrslunni er vitnað til orða Bernanke þar sem hann segir að fjármálakerppan sem hófst í september 2008 sé versta kreppa í sögu heimsins. Hún hafi því verið verri en Kreppan mikla (e. Great Depresson) sem hófst árið árið 1929.

Tíu þingmenn sátu í nefndinni, sex demókratar og 4 repúblíkanar. Helsta gagnrýni meirihluta demókrata beindist að störfum fyrrum seðlabankastjóra, Alan Greenspan. Meðal þess sem gagnrýnt er í skýrslunni er stefna Greenspan að minnka reglusetningu á fjármálamarkaði.