Hlutabréfa lækkuðu nokkuð í verði út um allan heim í morgun, annan daginn í röð. Nú þegar markaðir eru enn opnir í Evrópu og búið er að opna markaði í Bandaríkjunum hafa hlutabréfavísitölur þó aðeins rétt úr kútnum.

Á vef Bloomberg fréttaveitunnar kemur fram að væntingar til nýrra hagvísa í Bandaríkjunum séu lágar og útskýri að mestu lækkanirnar á hlutabréfamarkaði í gær og í dag.

Það sem af er degi hefur MSCI heimsvísitalan lækkað um 0,5%, og hefur vísitalan þá lækkað um 4,3% í þessum mánuði sem er svipað og hún gerði í maí sl. sem þá var mesta lækkun á einum mánuði frá því í september í fyrra. Fyrr í dag hafði vísitalan lækkað um 0,75% en þegar líða fór á daginn í Bandaríkjunum fóru vísitölur vestanhafs að hækka.

Þegar þetta er skrifað, kl. 14.30 og um klukkutími er í lokun markaða í Evrópu, hafa hlutabréfavísitölur í Evrópu og á Norðurlöndunum lækkað á bilinu 0,2 – 0,9%. Heldur hefur þó dregið úr lækkun í Evrópu en um hádegisbil höfðu markaðir lækkað um 1% á flestum stöðum.

Nikkei vísitalan í Japan hafði við lokun í morgun lækkað um 3,5%, sem er mesta lækkun á einum degi frá því í maí sl. að sögn Reuters fréttastofunnar.

Markaðir í Bandaríkjunum lækkuðu strax við opnun en nú hafa helstu vísitölur hins vegar hækkað. Þannig hefur Nasdaq hækkað um 0,1% eftir að hafa lækkað um 0,6% strax við opnun. Þá hefur Dow Jones vísitalan hækkað um 0,5% og S&P 500 um 0,4% en báðar lækkuðu þær við opnun markaða.

Viðsnúninginn í Bandaríkjunum, og Evrópu núna seinnipartinn, má helst rekja til nýbirtra talna sem sýna að húsnæðisverð í 20 stærstu borgum Bandaríkjanna hefur hækkað umfram það sem áður var gert ráð fyrir. Markaðir í Asíu og í Evrópu í morgun tóku hins vegar tillit til þess að væntingavísitalan í Bandaríkjunum hefur nú náð fimm mánaða lágmarki, auk þess sem engin breyting hefur orðið á fjölda atvinnulausra í Evrópu á milli mánaða.