Alls 55 sveitarfélög af 78 hafa nýtt sér nýfengna heimild Alþingis til að hækka útsvarið í 13,28%. Þar af hefur eitt sveitarfélag, Bolungarvík, fengið sérstaka heimild til að hækka útsvarið enn frekar, eða upp í 14,61%.

Sé litið á höfuðborgarsvæðið hafa þrjú sveitarfélög þ.e. Kópavogur, Hafnarfjörður og Álftanes, nýtt sér heimildina til að hækka útsvarið í 13,28%.

Reykjavík er með óbreytta prósentu milli ára eða 13,03%, sem og Garðabær með 12,46% og Kjósahreppur með 12,53%.

Seltjarnarnes er með lægstu útsvarsprósentuna á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. 12,10%.

Hækkunin skilaði sveitarfélögunum allt að 2 milljörðum

Alþingi samþykkti fyrir jól lagaákvæði um heimild sveitarfélaga til að hækka útsvar um 0,25 prósentustig, þ.e. úr 13,03% í 13,28%. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði er hann mælti fyrir breytingunum að áætlað væri að hækkunin gæti skilað sveitarfélögum allt að 2 milljörðum króna í útsvarstekjur miðað við það að öll sveitarfélög landsins fullnýttu heimildina.

Hann sagði að breytingarnar myndu "skapa mun betri forsendur fyrir rekstri sveitarsjóðanna á næstu árum, en að öllu óbreyttu hefði stefnt í allnokkra tekjulækkun hjá mörgum sveitarfélögum vegna hinna miklu umskipta sem orðið hafa í efnahagsmálum þjóðarinnar."

Skuldir sveitarfélaga landsins jukust verulega á síðasta ári. Gróflega er áætlað að skuldir og skuldbindingar sveitarfélaga hafi samanlagt numið allt að 240 milljörðum króna við árslok 2008, að sögn Gunnlaugs A. Júlíussonar, sviðstjóra hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Endanlegar tölur liggja þó ekki fyrir.

Nánar er fjallað um stöðu sveitarfélaganna í Viðskiptablaðinu í dag.