Verðmunur á skólabókum fyrir framhaldsskóla er allt að 46%, samkvæmt nýrri verðlagskönnun á skólabókum sem Verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi í bókaverslunum höfuðborgarsvæðisins á þriðjudaginn.

Í helmingi tilvika var á milli 30-45% verðmunur á hæsta og lægsta verði verslana. Griffill var oftast með lægsta verðið á nýjum bókum í þessari verðkönnun en 17 titlar af 32 voru ódýrastir hjá þeim. Því næst kom A4 með lægsta verðið á 12 titlum, en Eymundsson var oftast með hæsta verðið.

Mestur verðmunur í könnuninni af nýjum bókum var á bókinni „Uppspuni: Nýjar íslenskar smásögur,“ en bókin var dýrust á 4.299 kr. hjá Eymundsson en ódýrust á 2.950 kr. hjá Griffli. Um er að ræða 46% verðmun.

Af þeim þremur bókaverslunum sem starfrækja einnig skiptibókamarkað var A4 oftast með hæsta útsöluverð á notuðum skólabókum. Griflfill var oftast með lægsta útsöluverðið. Hjá A4 var munurinn á innkaups- og útsöluverði skiptibóka, þ.e. álagning fyrirtækisins, á bilinu 60-80%. Hjá Eymundsson og Griffli var munurinn á bilinu 30-50%.