Lyfjaver Suðurlandsbraut var oftast með lægsta verðið samkvæmt nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ, eða í 8 tilvikum af 48.  Þar á eftir kom Austurbæjar Apóteki Ögurhvarfi, sem var með lægsta verðið í 7 tilvikum.

Hæsta verðið var oftast að finna hjá Siglufjarðar Apóteki eða í 8 tilvikum af 47. Gamla apótekið Melhaga og Lyfsalinn Álfheimum voru í 7 tilvikum með hæsta verðið.

„Oftast var á milli 25-50% verðmunur á hæsta og lægsta verði. Minnsti verðmunur í könnuninni var 10% en sá mesti 84%," segir í tilkynningu frá ASÍ. „Aðeins Lyfjaver Suðurlandsbraut átti til allar vörurnar sem skoðaðar voru en fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Lyfsalanum Álfheimum."

Mestur verðmunurinn var á Panaten kremi (50 ml.) sem var dýrast á 709 krónur hjá Lyfsalanum Álfheimum en ódýrast á 385 krónur hjá Austurbæjar Apóteki, sem er 324 króna verðmunur eða 84%, eins og áður sagði.

Minnsti verðmunurinn var á Ros bleikum naglalakksleysi (100 ml.). Hann var dýrastur á 619 krónur hjá Austurbæjar Apóteki en ódýrastur á 563 krónur hjá Rima Apóteki Langarima, sem er 10% verðmunur.

„Af öðrum vörum sem skoðaðar voru í könnuninni og voru fáanlegar hjá öllum söluaðilum má nefna að Vivag sápan - female (200 ml.) var dýrust á 1.490 kr. hjá Siglufjarðar Apóteki en ódýrust á 1.005 kr. hjá Apóteki Hafnarfjarðar Tjarnarvöllum, sem er 485 kr. verðmunur eða 48%.

A+D kremið original ointment (113 gr.) var dýrast á 2.012 kr. hjá Borgar Apóteki Borgartúni en ódýrast á 1.584 kr. hjá Apóteki Garðabæjar sem er 428 kr. verðmunur eða 27%."

Farið var í 21 apótek en Árbæjarapótek og Apótek Ólafsvíkur neituðu þátttöku í könnuninni.