Forstjóri stórfyrirtækisins General Motors, Dan Akerson, kennir Evrópu um lágt gengi hlutabréfa í fyrirtækinu. Aðalfundur fyrirtækisins fór fram í Detroit í dag. Þetta kemur fram á vef fréttastofunnar CNN í dag.

Hluthafar gerðu athugasemdir á fundinum við að verð hlutabréfa væri of lágt og að ekki væri greiddur út arður. Akerson sagði hlutabréfaverðið hafa lækkað vegna taps á rekstri í Evrópu, gífurlega skuldbindinga fyrirtækisins í lífeyrisgreiðslum og mikillar óvissu um þróun efnahagslífsins á næstu vikum.

Niðurstöðurnar sem Akerson kynnti úr ársreikningi fyrirtækisins í dag voru þó ekki svo slæmar. Sala jókst töluvert á milli ára og nam hagnaður 7,6 milljörðum bandaríkjadala sem er met hjá fyrirtækinu.