Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,5% í 2,6 milljarða króna veltu er öll félög aðalmarkaðar Kauphallarinnar voru rauð í viðskipum dagsins. Iceland Seafood, sem greindi í gær frá hundrað milljóna tapi á fyrsta ársfjórðungi, leiddi lækkanir en gengi félagsins féll um 4,4% og stendur nú í 9,85 krónum á hlut eftir þriðjungslækkun í ár.

Eimskip fylgdi þar á eftir í 3,8% lækkun í tæplega hálfs milljarðs króna viðskiptum. Hlutabréfaverð flutningafélagsins lækkaði um 3,8% og var í 505 krónum við lokun Kauphallarinnar.

Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem lækkuðu um 1,6%. Gengi félagsins stendur nú í 626 krónum eftir 28% lækkun í ár og hefur ekki verið lægra frá því í maí 2020.

Hlutabréf Icelandair og Play lækkuðu talsvert í dag og hafa ekki verið lægri frá því í byrjun mars. Gengi Icelandair féll um 3,7% í 150 milljóna veltu og stendur nú í 1,66 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Play er komið niður í 21,1 krónu eftir 3,2% lækkun í dag en velta með bréf flugfélagsins nam þó aðeins 12 milljónum.