Alma Tryggvadóttir hefur tekið til starfa sem sérfræðingur í persónurétti hjá Landsbankanum og starfar hún innan regluvörslu bankans.

Alma lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 2009 og útskrifaðist með MBA-gráðu frá sama skóla árið 2016. Alma hlaut vottun breska staðlaráðsins árið 2014 sem úttektaraðili upplýsingaöryggiskerfa og fékk málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2015.

Alma starfaði áður hjá Persónuvernd í rúm átta ár sem skrifstofustjóri upplýsingaöryggis og þar áður sem lögfræðingur. Þá var Alma settur forstjóri Persónuverndar hluta árs 2015. Sérhæfing Ölmu á sviði persónuréttar er mikil og hefur hún tekið þátt í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi á því sviði segir í fréttatilkynningu frá bankanum.

Þá hefur hún haldið fjölda kynninga hérlendis og erlendis um persónuvernd, meðferð persónuupplýsinga og upplýsingaöryggi. Innanríkisráðherra tilnefndi Ölmu til setu í netöryggisráði frá 2015 til 2017.

Alma stýrir starfshópi innan Landsbankans sem hefur það meginverkefni að undirbúa og aðlaga starfsemi bankans að nýrri persónuverndarlöggjöf sem kemur til framkvæmda árið 2018.

Hún mun hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum persónuverndarlöggjafar í starfsemi bankans, veita ráðgjöf um vinnslu persónuupplýsinga og þjálfa starfsfólk bankans sem vinnur með persónugreinanlegar upplýsingar.