„Hvernig ætlar hann að skapa lífeyrissjóðum fjárfestingatækifæri uppá 110 til 130 milljarða með þessum vöxtum [3,5%] þar sem þeir geta ekki farið til útlanda?" spurði Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi eftir hádegi í dag. Benti hann á að þeir þurftu arðbær fjárfestingatækifæri til að geta staðið undir 3,5% vaxtaviðmiði til að mæta framtíðarskuldbindingum.

Pétur vitnaði með þessu beint í tölur sem Marinó Örn Tryggvason, forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta í Arion banka, nefndi á morgunverðarfundi bankans í morgun þar sem hann benti á fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna. Uppsöfnuð fjárfestingarþörf væri 1.200 milljarðar króna á næstu tíu árum eins og fram kom í frétt á vb.is fyrr í dag.

Steingrímur J. Sigfússon sagðist gera sér vonir um að lífeyriskerfið myndi styrkjast á næstu misserum með batnandi gengi í hagkerfinu. „Það má vænta þess að fleiri fyrirtæki verði skráð í kauphöll á næstu mánuðum og misserum, meðal annars fyrirtæki sem eru að koma frá bönkunum. Þá rýmkast um fjárfestingarmöguleikum lífeyrissjóða eins og annarra í skráðum fyrirtækjum," sagði Steingrímur.

50 fyrirtæki skráð til 2015

Viðskiptablaðið 31. mars 2011
Viðskiptablaðið 31. mars 2011
© vb.is (vb.is)
Á kauphallardegi Arion banka 31. mars sl. sagði Páll Harðarson, forstjóri kauphallarinnar, að mikið væri framundan í þessum efnum og að árið 2015 mætti allt eins eiga von á því að 50 fyrirtæki yrðu skráð í kauphöllina.

Ítarleg fréttaskýring var um fyrirtæki sem gætu hugsanlega verið skráð í Kauphöll Íslands á næstu mánuðum í Viðskiptablaðinu 31. mars 2011. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .