Auka þarf markaðsfrelsi í Kína ef hagkerfið þar í landi á að geta haldið áfram að vaxa jafnhratt og það hefur gert undanfarna þrjá áratugi, að sögn Alþjóðabankans. Bankinn segir að kínverska hagkerfið standi nú á tímamótum og að nauðsynlegt sé að endurskoða hagvaxtarstefnu sem sé orðin ósjálfbær, að því er segir í frétt á vef BBC.

Meðal þess sem segir í skýrslu Alþjóðabankans er að Kína þurfi að endurskilgreina hlutverk ríkisvaldsins, fara í umbætur á ríkisstofnunum og auka samkeppni á markaði. Þá þurfi að styrkja stoðir ríkisfjármála með því að fjölga tekjustraumum og opna hagkerfið fyrir erlendri fjárfestingu.

Nýjustu tölur benda til kólnunar í kínverska hagkerfinu og sýna opinberar tölur að eftirspurn eftir kínverskum framleiðsluvörum minnkaði í janúar.