Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður Samtaka atvinnulífsins, segir samdrátt í viðskiptalöndum geta haft áhrif á útflutningstekjur Íslendinga af sjávarafurðum auk þess sem áhrifin gætu smitast á ferðaþjónustuna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Hlutabréfamarkaðir tóku dýfu um heim allan í gær í kjölfar mikillar verðlækkunar á Asíumarkaði. Þá lækkaði hlutabréfavísitalan í Shanghai um 8,5% og smitaðist það yfir í aðrar kauphallir, þar sem FTSE-vísitalan í Lundúnum lækkaði t.d. um 4,6% og Dow Jones-vísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um 3,6%. Auk þess hefur verð á hrávöru og olíu farið hríðlækkandi að undanförnu.

Ásdís segir að til skamms tíma hafi þróunin jákvæð áhrif fyrir Ísland. „Verð á innfluttum hrávörum og olíu er að lækka. Að sama skapi er krónan að styrkjast, sem dregur úr verðbólguþrýstingi.“

Hún segir hins vegar að til langs tíma hafi samdráttur erlendis áhrif á verð útflutningsafurða Íslendinga, eins og fisks og áls, ef eftirspurnin dregst saman.

„Jafnframt gætu áhrifin smitast yfir á ferðaþjónustuna, koma ferðamanna gæti dregist saman og neysla þeirra hér á landi minnkað. Kreppa erlendis gæti þannig komið niður á útflutningstekjum okkar,“ segir Ásdís við Morgunblaðið.