Alþjóðlegt ráðstefnuhald á Íslandi skilar milljörðum króna í gjaldeyristekjur að sögn Karitasar Kjartansdóttur, ráðstefnustjóra í Hörpu.

„Það er talið að ein þúsund manna alþjóðleg ráðstefna, sem stendur yfir í þrjá daga, skili allt að einum milljarði í gjaldeyristekjur,“ segir Karitas. „Svo ég nefni dæmi þá voru evrópskir tannréttingarsérfræðingar með 2.500 manna ráðstefnu hjá okkur í fyrra, um 1.500 manns voru á ráðstefnu CCP um Eve Online og á Arctic Circle-ráðstefnunni voru 1.000 manns. Okkur reiknast til að ráðstefnurnar sem haldnar voru í Hörpu í fyrra hafi skilað á bilinu fimm til sex milljörðum í gjaldeyristekjur.“

„Í heildina vorum við með 15 alþjóðlegar ráðstefnur í fyrra sem er um 45% aukning frá árinu 2012. Vanalega eru alþjóðlegar ráðstefnur bókaðar með þriggja til fimm ára fyrirvara. Það eru hins vegar tæp þrjú ár síðan Harpa opnaði og þess vegna telst þetta alveg stórkostlegur árangur þó ég segi sjálf frá. Það er í raun alveg með ólíkindum að okkur hafi tekist að bóka þessa viðburði áður en húsið var opnað. Mörg af stóru ráðstefnuhúsunum í Evrópu fá ekki mikið meira en 10 til 15 stórar alþjóðlegar ráðstefnur á ári,“ segir Karítas meðal annars.

Fréttin birtist í blaðinu Ráðstefnur og fundir sem fylgdi Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 30. janúar. Þú getur nálgast blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð.