Alþjóðlegir fjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir og aðrir langtímafjárfestar skuldabréfa, hafa selt ríkisskuldabréf Spánar, Ítalíu og Frakklands að andvirði 100 milljarða evra á síðustu tveimur árum þar sem þeir hafa misst trú á sameiginlegri evrópskri mynt. Þetta kemur fram á vef Financial Times.

Merki um lítinn hagvöxt í evrulöndunum, m.a. vegna mikils niðurskurðar ríkisútgjalda, veldur alþjóðlegum fjárfestum miklum áhyggjum.

Þetta áhugaleysi fjárfestanna getur valdið því að mati blaðsins að Spánn komist í sömu stöðu og Grikkland og þurfi neyðaraðstoð.

Álag á spænsk ríkisskuldabréf ekki hærra í 4 mánuði

Álag á spænsk ríkisskuldabréf til 10 ára fór yfir 6% í dag. Almennt er talið að Spánn ráði ekki við svo hátt álag til lengri tíma og sé því ósjálfbært. Því þarfnast landið nauðsynlega áhuga alþjóðlegra fjárfesta.

Sérfræðingar telja að spænskir bankar hafi nýtt allt það lánasvigrúm sem þeir fengu frá Seðlabanka Evrópu til að kaupa ríkisskuldabréf Spánar. Reyndar telja sérfræðingar Deutsche Bank að bankarnir séu komnir fram úr þeim heimildum sem nemur 7 milljörðum evra en bankarnir hafa keypt spænsk ríkisskuldabréf fyrir 61 milljarð evra frá desember 2011til febrúar 2012.

Björgun Grikklands hafði slæm áhrif á fjárfesta og þeir haldi að sér höndum með að kaupa spænsk og ítölsk ríkisskuldabréf, og jafnvel einnig frönsk.

Alþjóðlegir fjárfestar áttu 44% ríkisskuldabréfa Spánar árið 2010. Hlutfallið var komið í 33% í janúar í ár. Í september 2011 áttu þeir 49% ítalskra ríkisskuldabréfa en það var 52% árið 2010.

Hlutfallið hefur einnig lækkað þegar kemur að frönskum ríkisskuldabréfum. Það var 71% árið 2010 en var orðið 65% í árslok 2011.

Áhugi alþjóðlegra fjárfesta hefur enn dvínað í ár. Eftir að Evrópski seðlabankinn tilkynnti um ódýr lán til banka til þriggja ára til að kaupa ríkisskuldabréf jókst eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum mikið, álag lækkaði og þar af leiðandi hækkaði verðgildi þeirra. Við það tækifæri seldu fjárfestar enn meira.

Því telja margir sérfræðingar að seðlabankinn evrópski hafi pissað í skóinn sinn í upphafi ársins. Honum hlýnaði í fáeina mánuði. En nú hafi aftur kólnað. 

Gjaldeyrir
Gjaldeyrir
© AFP (AFP)