Reykjanesbær á í viðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu skuldbindinga bæjarfélagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar í dag.

Fram kemur í tilkynningunni að ef að viðræðurnar eigi að skila árangri þá þurfi að nást samkomulag við kröfuhafa um verulega niðurfellingu skulda.

Reykjanesbær sendi frá sér tilkynningu fyrir stuttu að bæjarráð hefði hafnað ósk Reykjaneshafnar um fjármögnun en hætta er á greiðslufalli á skuldbindingum hafnarinnar sem eru á gjalddaga þann 15. október. Aðkoma kröfuhafa Reykjaneshafnar í formi endurskipulagningar skulda er forsenda fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu Reykjanesbæjar.

Ef ekki nást samningar við kröfuhafa verður óskað eftir því að bæjarfélaginu verður skipuð fjárhagsstjórn, eins og skylt er samkvæmt sveitastjórnarlögum.

Samkvæmt tilkynningunni áætlar Reykjanesbær að leggja fram tillögur að heildarskipulagningu fjárhags bæjarins á næstunni.