Alþjóðlegir bankar eru að losa sig við spænsk fasteignaveðlán vegna ótta við að Spánn  sé að sigla inn í mestu efnahagsniðursveiflu í sögu landsins. Þetta kom fram á vefsíðu Daily Telegraph á föstudag, en fjölmargir Íslendingar eiga nú fasteignir á Spáni.

Sagt er að ástæðuna fyrir vandræðum Spánverja megi rekja til aðildar að myntbandalagi Evrópu. Það hafi lækkað vexti í landinu á augabragði um helming. Þá hafi vextir verið lægri en verðbólga í nokkur ár samfellt og það hafi orsakað sprengingu í útlánum.

Í greininni er m.a. sagt að Inmobiliaria Colonial, sem eitt sinn var stærsta fasteignafélag Spánar, eigi nú í neyðarviðræðum við lánastofnanir eftir að Dubai's Investment Corporation dró til baka tilboð sitt um að bjarga félaginu.

Haft er eftir fasteignasölum að fasteignaverð hafi tekið að lækka eftir að lánastofnanir lækkuðu veðhlutfall sinna lána, líkt og gerðist í Bandaríkjunum. Sagt er að Ismael Clemente, yfirmaður RREEF á Spáni sem er fasteignaarmur Deutsche Bank, að hann hafi sagt í hópi sérfræðinga í Madrid að erlendir bankar væru að lækka veðhlutfall sem tryggingu á bak við lán sín niður í 40%. Er það algjör kúvending þar sem ekki er langt síðan bankar lánuðu 80 til 90% af söluverði eigna á Spáni.

Þá er haft eftir Mikel Echavarren, fasteignaráðagjafa Irea, að spænski fasteignamarkaðurinn sé mun veikari en opinberar tölur gefa til kynna. Telur hann fasteignaverðið geti fallið um 20 til 25%. Segir hann að verðfallið sé þegar um 5 til 7% og kaupendur séu algjörlega horfnir af markaðnum.

„Við höfum séð bylgju neikvæðrar sölu þar sem fólk er að draga sig út úr samkomulagi um kaup sem það hafði þegar gert,” segir Echavarren.

Segir hann ástandi háalvarlegt þar sem bygginga- og þróunarfélög geti ekki lengur endurfjármagnað sínar skuldir. Þar þurfi að lækka vexti um 2% sem sé auðsjáanlega ekki að gerast. Bætti hann því við að hrunið gæti orðið enn verra en í fasteignakreppunni á Spáni í byrjun tíunda áratugarins.

Santiago Baena, yfirmaður spænsku fasteignasölustofnunarinnar API, segir að niðursveiflan hafi þegar leitt til þess að 40.000 söluskrifstofur með 120.000 starfsmönnum hafi neyðst til að loka sínum dyrum.

Þá vitnar Telegraph í Spánarbanka (Bank of Spain) sem segi að vextir muni vissulega hækka, en spænska bankakerfið sé samt við góða heilsu. Það hafi t.d. ekki orðið fyrir miklum skaða af lánakrísunni í Bandaríkjunum. Enn væri lánað út á allt að 70% veðhlutfall í spænskum bönkum. Hins vegar sé fullyrt í þýska dagblaðinu Die Welt, að væri farið í kringum þessar lánareglur og hlutfallið væri í raun hærra þar sem söluverð væri oft falsað.

Haft er eftir ónafngreindum yfirvöldum að ef hrunið yrði í líkingu við það sem varð upp úr 1990 þá myndi lánageta bankakerfisins rýrna um 63%. Framkvæmdaaðilar skuldi bönkum og öðrum lánastofnunum þegar um 290 milljarða evra. Á árinu  2007 voru 740.000 nýjar íbúðir byggðar á Spáni í kjölfar metíbúðaframleiðslu árið 2006. Er þetta meira en byggt var samanlagt bæði í Bretlandi og í Þýskalandi.

Stór hluti af þessu húsnæði er enn óselt og telur Deutsche Bank að fasteignaverð muni lækka um 8%. Standard & Poor's segja hins vegar að Spánverjar horfi fram á hættu á meiriháttar hruni í byggingaframkvæmdum. Það geti haft alvarlegar afleiðingar því einn fimmta af öllum störfum sem skapast hafi á Spáni síðan árið 2000 hafi orðið til í byggingariðnaði.

Sagt er að spænsk stjórnvöld séu að bregðast við niðursveiflunni með því að dæla 20 milljörðum evra í opinberar framkvæmdir við járnbrautarsamgöngur og önnur stórverkefni. Þá hafi Spánarbanki þurft að taka 44 milljarða evra skuldabréfalán til að tryggja sína stöðu.