Álverð hefur átt verulega á brattann að sækja undanfarna mánuði en eftirspurn hefur minnkað hratt eftir áli og birgðir hafa safnast upp.

Þetta kemur fram í umfjöllun IFS Greiningar um hrávöruverð en þar kemur fram að talið er að í dag séu til um 100 daga birgðir af áli.

Þá kemur fram að miðað við verðið í dag er talið að um 75% álvera í heiminum séu rekin með tapi.

„Nú er talið líklegt spurn Japana eftir áli muni dragast saman um 11% á milli ára, og yrði hún þá sú minnsta þar í landi í um 23 ár,“ segir í umfjöllun IFS Greiningar.

„Eftirspurn Japana eftir áli er að minnka hratt þar sem útflutningur á vörum þar sem ál kemur við sögu hefur dregist saman um nærri 50%. Hér spilar stærst hlutverk lítil eftirspurn eftir bílum og raftækjum frá Evrópu og Bandaríkjunum.“

Fram kemur í umfjöllun IFS að hrávöruvísitölurnar hafa þó hækkað töluvert undanfarið. Goldman Sachs vísitalan hefur hækkað um rúm 12% síðasta mánuðinn, og 24% frá botni, en hún er mjög þung í olíutengdum afurðum.

„Aðgerðapakki Bandaríkjastjórnar hefur haft jákvæð áhrif á markaði og má tengja hækkun á olíu við aukna bjartsýni um að raunhagkerfið kunni að fara að sjá til botns,“ segir í umfjöllun IFS.

Verð á hráolíu hefur hækkað um 12% s.l. mánuð

Þá kemur fram að verð á hráolíu hefur tekið vel við sér undanfarnar vikur en verðið hefur hækkað um 12% síðasta mánuðinn.

IFS Greinin segir hækkunina á verði hlutabréfa og samdrátt í framleiðslu hjá OPEC ríkjunum hafa helst verið til hækkunar á verði undanfarið.

„Þá hefur aðgerðapakki Bandaríkjastjórnar blásið nokkru lífi í markaði og væntingar hafa aukist um að raunhagkerfið fari að sjá til botns innan skamms,“ segir í umfjöllun IFS.

„Enn eru þó til miklar birgðir af olíu í Bandaríkjunum og talið er að þær þurfi að lækka til að hægt sé að tala um að olíuverð muni haldast nærri núverandi verðum, eða hærra. Batnandi hagtölur á næstunni geta leitt til frekari verðhækkana á olíu þar sem framleiðslugetan hefur ekki aukist undanfarin misseri.“