Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað mikið að undanförnu eftir að hafa náð sínu hæsta gildi í 19 ár í fyrri hluta maí. Þróun álverðs hefur verið í takt við verð á öðrum hrávörum á undanförnum mánuðum, en umtalsverðar lækkanir hafa fylgt í kjölfar mikilla hækkana í mars og apríl, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

?Álverð gæti þó lækkað enn meira á næstu misserum vegna aukins framboðs hráefnis og gæti lækkunin numið allt að 20%. Þetta sagði Richard Evans, framkvæmdastjóri Alcan, í viðtali við Bloomberg fréttaveituna fyrr í vikunni. Álverð er nú í um 2.500 USD eftir að hafa náð hámarki í 3.185 USD fyrir rétt um mánuði síðan. Evans segir að lækkun niður í 2.000 USD sé ekki óraunhæf en tiltölulega mikil eftirspurn komi í veg fyrir að verðið fari mikið neðar en 2.000 USD," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir að hann hafi einnig sagt að jafnvægisverð á áli, sem hafi verið um 1.500 bandaríkjadali áður fyrr, væri sennilega hærra núna vegna veikrar stöðu Bandaríkjadollara, hærra orkuverðs og stöðugrar þenslu í Asíu. ?Lækkanirnar undanfarið eru raktar til hækkandi vaxta um allan heim sem draga úr hagvexti auk þess sem margir telja að hækkanir hrávöruverðs að undanförnu hafi verið óraunhæfar," segir greiningardeildin.

Hún segir að í morgun hafi verið tilkynnt að stærstu álframleiðendur Indlands, National Aluminium Co. og Hindalco Industries Ltd., hefðu ákveðið að lækka verð en þetta er önnur lækkun þessa mánaðar hjá báðum félögum. Ástæðan er sögð vera lækkandi álverð á heimsmarkaði en Indland er meðal stærstu álframleiðenda heims.

"Ekki eru þó allir sammála um áframhaldandi verðlækkanir, en talsmaður rússneska álframleiðandans, Russian Aluminum, segir að álverð muni hækka aftur á næstunni og að meðalverð ársins verði um 2.500 USD. Hann segir þó að minnkandi eftirspurn frá Kína gæti haft einhver áhrif til lækkunar, en í gær tilkynnti álrisinn Alcoa að þeir hygðust stórauka fjárfestingu sína í Kína. Félagið gerir ráð fyrir fjórföldun fjárfestingar í Kína á næstu 8 árum en Kínverjar eru einnig meðal mestu álframleiðenda heims," segir greiningardeildin.