*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 24. nóvember 2020 11:24

Álverð hækkað um 36% frá í sumar

Hrávöruverð fer hækkandi, þar á meðal á áli, kopar, olíu og korni samhliða því að sum hagkerfi taka hraðar við sér en önnur.

Ritstjórn
Brynjólfur Stefánsson er sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum.
Haraldur Guðjónsson

Álverð á heimsmörkuðum hefur hækkað um ríflega 36%, eða frá 1.462 dali tonnið í byrjun apríl í 1.993 dali tonnið nú að því er Morgunblaðið greinir frá.

Hrávöruverð hefur almennt farið hækkandi samhliða því að Kína og önnur ríki Asíu hafa náð að endurræsa hagkerfi sín eftir kórónuveirufaraldurinn hraðar en ríki Evrópu og Bandaríkjanna að mati Brynjólfs Stefánssonar sjóðsstjóra hjá Íslandssjóðum.

„Álið fylgir öðrum málmum nema hvað verð á áli og kopar hefur hækkað hraðar upp á síðkastið. Það er tengt því að iðnframleiðsla er að fara af stað í Asíu,“ segir Brynjólfur. Hann segir aðstæður þó áfram verða krefjandi á álmörkuðum vegna þess hversu mikið álframleiðsla hafi aukist í Kína á síðustu árum.

„Olíuverð hefur hækkað eftir tíðindin af bóluefnum, og væntingar um meiri eftirspurn, en þar hefur líka áhrif að olíuríkin hafa dregið töluvert úr framleiðslu. Menn sjá fram á að það muni ganga á heimsbirgðirnar á næstunni. Þess utan hefur gengi bandaríkjadals lækkað. Þar sem flestar hrávörur eru gerðar upp í dollurum hefur það jákvæð áhrif á eftirspurn.“

Brynjólfur gerir ráð fyrir að olíuverð hækki á ný þegar hagkerfi heimsins fara að taka við sér í vor, þó ekki sé útlit fyrir miklar hækkanir á því. „Olíuframleiðsluríkin geta þó flest aukið töluvert við framleiðslu sína sem mun koma í veg fyrir skarpar hækkanir. Kornverð hefur líka hækkað upp á síðkastið. Það er að koma til baka með krafti.“