Landsvirkjun sendi viðskiptavinum sínum bréf í fyrradag, þar sem fram kemur meðal annars að fyrirtækið muni að öllum líkindum þurfa að draga saman afhendingu á orku um 3,5% í byrjun næsta mánaðar. Gangi það eftir mun sú skerðing vara í allan vetur. Þetta mun meðal annars hafa áhrif á framleiðslugetu stóriðjunnar í landinu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að vegna óhagstæðs tíðarfars fyrir vatnsaflsvirkjanir búist Landsvirkjun við því að þurfa að draga saman afhendingu á orku sé. Vatnsstaða í miðlunarlónum sé óvenju lág um þessar mundir, en innrennsli í þau séu forsenda raforkuframleiðslu.

Veðrátta í september mun skipta miklu máli um það hver vatnsstaðan verður fyrir veturinn.

Tvöfalt högg

Ákvæði um skerðingu á afhendingu orku er að finna í samningum Landsvirkjunar við sína viðskiptavini. Á síðustu tíu árum hefur Landsvirkjun aðeins einu sinni þurft að takmarka afhendingu á orku. Það var árið 2013 og nam skerðingin þá 2%, sú skerðing hafði áhrif á framleiðslu álveranna í fyrra, 2014. Ástæðan fyrir þessu er sú að Landsvirkjun miðar við svokallað vatnsár, sem hefst 1. október hvert ár. Vatnsárið 2013 náði sem sagt til 1. október 2014.

Útlit fyrir að álverin tapi milljörðum bara vegna skertrar orku. Ofan á það kemur tap vegna lækkunar álverðs á heimsmarkaði. Það má því segja að álverin séu að verða fyrir tvöföldu höggi. Í fyrra fór álverð nokkrum sinnum yfir 2.000 dollara tonnið en að meðaltali var það 1.850 dollarar. Í dag fást tæplega 1.600 dollarar fyrir tonnið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .