Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir nær ekkert hafa gerst hjá Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í uppbyggingu á ferðamannastöðum eftir tvö og hálft ár í embætti. Þetta skrifar hann í stöðuuppfærslu á Facebook .

Þar tekur Össur upp orð Þráins Bertelssonar þess efnis að ráðherrar af kalíber Ragnheiðar Elínar séu sjaldgæfir. „Það er rétt hjá honum. Þeir eru sem betur fer einsdæmi,“ skrifar hann.

Ragnheiður engu komið í verk

Össur segir að á mörgum fjölsóttum stöðum séu innviðir að springa. Sums staðar ríki öngþveiti, þar sem aðþrengdir útlendingar gangi örna sinna á víðavangi eða álfreka í görðum heimamanna.

„Hvernig bregst ráðherra ferðamála við? Hún kemur með þá gáfulegu skýringu að þetta sé „hegðunarvandamál.“ Líklegast er hún eini Íslendingurinn sem þekkir ekki þá tilfinningu að vera í spreng eftir að hafa skakast tímunum saman í rútu. Staðreyndin er því miður sú að rót vandans liggur í henni sjálfri. Á tveimur og hálfu ári hefur Ragnheiður Elín engu komið í verk til að tryggja tekjustreymi til að byggja upp innviði á ferðamannastöðum,“ segir Össur.

Steindauður náttúrupassi eina afrekið

Össur segir að sem formaður þingflokks Sjálfstæðismanna hafi Ragnheiður Elín lagst harðast allra gegn skattbreytingum í tíð fyrri ríkisstjórnar sem aflað hefðu tekna til að leysa vandann. „Eina „afrek“ hennar er hinn steindauði náttúrupassi sem allir, jafnt hennar flokkur sem ferðaþjónustan, skutu á bólakaf enda alvitlausasta hugmynd sem fram hefur komið í áratugi,“ segir hann.

Hann segir að síðan þá hafi varla til ráðherrans spurst. Í dag hafi þó komið í ljós að hún væri enn í embætti þegar hún hafi gefið hina „gáfulegu yfirlýsingu“ um að það væri hegðunarvandamál að útlendingum yrði mál eftir að hafa hossast um hálendið. „Að sönnu má fallast á að vandinn felist í hegðun. En liggur ekki í augum uppi að „hegðunarvandamál“ Ragnheiðar Elínar er verkleysi hennar sjálfrar?“