Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech tilkynnti í vikunni að það stefndi á skráningu í NASDAQ kauphöllina í New York, en samhliða því verður félagið skráð á First North markaðinn á Íslandi. Skráningin mun eiga sér stað með samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp II.

Heildarvirði Alvotech við skráninguna er áætlað um 2,25 milljarðar dala, eða um 295 milljarðar króna, en félagið sækir sér samtals um 60 milljarða króna við hlutafjáraukninguna. Gangi áætlanir Alvotech um tekjuvöxt og markaðsaðstæður eftir er ekki ólíklegt að félagið verði eitt verðmætasta félag Íslandssögunnar árið 2025. Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir 800 milljónum Bandaríkjadala í tekjur það ár, leiðrétt fyrir líkum á því að lyf í framleiðsluferli komist á markað.

Samkvæmt fjárfestakynningu gæti fyrirtækið verið 9,6 milljarða Bandaríkjadala virði á þeim tíma, eða 1.245 milljarða króna. Til samanburðar er markaðsvirði Marels í dag um 650 milljarðar króna.

Alvotech ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þegar kemur að framleiðslu samheitalyfja, en fyrsta hliðstæðulyf fyrirtækisins er framleitt til höfuðs gigtarlyfinu Humira, sem framleitt er af lyfjarisanum AbbVie. Markaðsvirði AbbVie er u.þ.b. 212 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 27 þúsund milljarðar króna, en Alvotech stendur nú í málaferlum við AbbVie sem miða að því að fá markaðsleyfi fyrir hliðstæðulyfið.

„Málaferlin hafa verið í undirbúningi í þrjú ár og við teljum okkur vera í góðri stöðu. Ég hef staðið í málaferlum við stóru lyfjafyrirtækin í 20 ár til að koma samheitalyfjum á markað í Bandaríkjunum. Okkur hefur tekist að koma öllum stóru lyfjunum, sem við höfum ætlað okkur, á markað síðustu tvo áratugina. Við töldum því skynsamlegast að halda áfram málaferlum við AbbVie til að komast sem fyrst á markað," segir Róbert Wessman, stjórnarformaður félagsins.

Hann segir Humira velta um 16 milljörðum Bandaríkjadala á ári og eru hagsmunir AbbVie því gífurlegir. Þeir sjái hag sinn í að tefja markaðsinnkomu félaga á borð við Alvotech, og þar getur hver mánuður skipt miklu máli. Róbert býst við því að niðurstöðu úr málaferlunum sé að vænta í seinasta lagi í október á næsta ári.

„Þeir sem gert hafa sátt við AbbVie hafa flestir fengið rétt til að koma á markað í júlí 2023. Við höfum ekki gefið út hvenær við förum á markað en höfum vísað til þessarar dagsetningar í því samhengi," segir Róbert.