Hið nýstárlega ef rangnefnda „svifbretti” hefur orðið geysilega vinsælt í Bandaríkjunum eftir að stórstjörnur á borð við Justin Bieber og Mike Tyson hafa birt myndbönd af sér að prófa græjurnar.

Tækin eru byggð líkt og furðuleg hjólabretti, og ganga fyrir rafmagnsmótor. Ef til vill væri réttara að kalla græjuna rafhjólabretti. Maður ferðast um á tækinu með því að halla sér um á því, og er það ákveðin kúnst að læra, sem tekur þó aðeins örstutta þjálfun.

Brettinu er lýst sem hinni mestu skemmtun. Maður flýtur um á því líkt og maður svífi - en það er líklega þaðan sem hið undarlega nafn kemur. Þó er galli á gjöf njarðar - einhverskonar hönnunargalli í rafbúnaði tækisins veldur því að það hefur átt það til að kveikja í sjálfu sér. Sífellt fleiri mál dúkka upp þar sem bruni verður í fasteignum eftir að kviknað hefur út frá „svifbrettinu” svokallaða.

Nú hefur öryggisráð neytenda í Bandaríkjunum skyldað Amazon, sem hefur selt brettin í massavís gegnum vefsölusíðu sína, til þess að veita viðskiptavinum sínum endurgreiðslu, óski þeir eftir því. Þegar hafa brettin umdeildu orðið áhrifavaldur í einu andláti, en í desember síðastliðinn lést 15 ára táningur frá London þegar strætisvagn keyrði á hann, eftir að hafa rúllað stjórnvana út á götuna.