Frá og með 29. október verður ekki hægt að kaupa Apple TV eða Google Chromecast í verslunum Amazon. Forsvarsmenn netverslunar risans tilkynntu þetta í gær. Segja þeir ástæðuna þá að Apple og Google tækin henti ekki til að streyma Prime video. Prime video er efnisveita í eigu Amazon, svipuð og Netflix.

Það eitt að Amazon hyggist fjarlægja þessar vörur úr sínum hillum rétt fyrir jólavertíðina þykir sýna að fyrirtækinu sé full alvara og tilbúið að fórna umtalsverðum fjárhæðum í þeim tilgangi að auka enn söluna á sínu eigin tæki, sem nefnist Amazon Fire TV. Amazon Fire TV er nú þegar mest selda raftækið í netverslun Amazon.

Þó Amazon hyggist hætta sölu á Apple TV og Google Chromecast tækjunum þá ætlar fyrirtækið áfram að selja Roku, XBox og Playstation. Stjórnendur fyrirtækisins segja að þessi tæki henti vel til að streyma Prime video.

Bloomberg greinir frá þessu.