*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Erlent 17. nóvember 2020 14:58

Amazon opnar lyfjaverslun

Hlutabréf stóru lyfjakeðjanna í Bandaríkjunum lækka í kjölfarið á því að netsölurisinn fer í samkeppni við þær.

Ritstjórn
epa

Í dag opnaði netsölurisinn apótek á netinu í Bandaríkjunum þar sem viðskiptavinir geta pantað lyfseðilsskyld lyf og fengið þau send heim að dyrum innan fárra daga. Samhliða tilkynningu Amazon um opnun netverslunarinnar með lyf féllu bréf í nokkrum bandarískum lyfjaverslunum eis og CVS Health Corp, Walgreens og Rite Aid um 9 til meira en 10% á eftirmarkaði.

Stóru lyfjaverslunarkeðjurnar í Bandaríkjunum treysta á að kaupendur lyfseðilsskyldra lyfja grípi með sér ýmislegt annað góðgæti, eða hreinlætisvörur í leiðinni. Þegar þetta er skrifað nemur lækkun bréfa CVS Health Corp 7,47%, Walgreens 8,73% og Rite Aid 12,33%.

Þó allar keðjurnar haldi jafnframt úti netverslunum segir AP fréttastofan að netverslun Amazon með lyf sé mun stærri en stóru keðjanna í bransanum. Jafnframt munu meðlimir í Amazon Prime áskriftarþjónustunni njóta afsláttarkjara, bæði í netversluninni sem og í mörgum lyfjaverslunum um landið allt.

Ekki einungis verði hægt að kaupa lyf sem þarfnist lyfseðils í netversluninni heldur verður einnig hægt að kaupa lyf sem þarf að kæla eins og insúlín, en þó verður ekki í boði að kaupa lyf sem hægt sé að misnota eins og ópíumskyld lyf.

Á móti hafa CVS og Walgreens sem halda úti þúsundum lyfjaverslana um landið allt reynt að svara aukinni netverslun með því að bjóða lyf send heim samdægurs, sem og fyrirtækin hafa bæði gert tilraunir með sjálfkeyrandi bíla og dróna sem geti sent vörur heim.

Amazon hefur haft augun á lyfsölugeiranum um nokkurn tíma, en fyrir tveimur árum keypti fyrirtækið netapótekið PillPack fyrir 750 milljón Bandaríkjadali. Þjónusta fyrirtækisins heldur áfram fyrir fólk með alvarlega sjúkdóma, en hún felur í sér að færa fólki lyfjapakka á þeim tímum sem taka eigi lyfin.

Stikkorð: Amazon Walgreens Rite Aid CVS Health Corp