Uppgjör Bakkavör Group er vel yfir væntingum Greiningardeildar Kaupþings banka og nam hagnaður félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins 4,2 m. punda saman borið við spá þeirra upp á 3 m. punda. Það er tvennt sem skýrir þennan mun en það eru hærri tekjur og samtímis lægri kostnaður. Í spá þeirra höfðu þeir gert ráð fyrir 10% vexti tekna miðað við fyrsta fjórðung 2004. Þess má geta að verulega munaði á milli greiningardeilda í verðmatsgengi á Bakkavör.

Í raun varð þessi vöxtur 14% og í pundum talið er munurinn rúmar 1,3 m. punda. EBITDA félagsins var 8,1 m. pund á fyrsta fjórðungi ársins, en spá Greiningardeildar Kaupþings banka gerði ráð fyrir 6,2 m. punda EBITDA. Því er EBITDA framlegð Bakkavör Group 20,9% á fjórðunginum sem er 0,9% yfir takmarki félagsins um 18% til 20% framlegð. Hefur Bakkavör því tekist mjög vel að halda aftur af kostnaði á fyrsta fjórðungi ársins segir Greiningardeild Kaupþings.

Þann 9. mars birti Greiningardeild Kaupþings banka nýtt verðmat á Bakkavör sem tók til sameiningar þeirra við Geest. Hækkuðum við þá verðmat okkar úr 24,8 krónum á hlut í 36,4 krónur á hlut. Miðar þetta við nafnávöxtunarkröfu upp á 10,3% og var hún lækkuð úr 11,4% frá fyrra verðmati. Vogunarráðgjöf Greiningardeildar Kaupþings banka helst nú óbreytt og mælum þeir áfram með að fjárfestar yfirvegi bréf Bakkavarar í vel dreifðum eignasöfnum