Björgólfur Thor Björgólfsson sagði í þakkarræðu sinni þegar hann tók við Viðskiptaverðlaunum Viðskiptablaðsins að hann væri bæði ánægður og stoltur af verðlaununum. Þetta er í annað sinn sem Björgólfur hlýtur verðlaunin en hann fékk þau fyrir fimm árum eftir að hann, ásamt öðrum, keypti Landsbanka Íslands.

“Árið sem nú er að líða hefur að mörgu leyti verið sögulegt og þá einkum á fjármálamörkuðum. Þau fimm ár sem liðin eru síðan ég tók við þessum verðlaunum síðast eru að öllum líkindum eitt athyglisverðasta tímabil síðar tíma sögu viðskipta hér á landi. Í lok árs 2002 grunaði fáa að einkavæðing bankanna mundi hafa eins byltingarkennd áhrif og raun varð á.

Íslensk fjármálafyrirtæki hafa vaxið og dafnað ótrúlega hratt og þá einkum vegna starfsemi sinnar á alþjóðamarkaði og bankarnir urðu burðarásar í alþjóðavæðingu íslenskrar útrásar. Á þessum skamma tíma hafa nær öll stærstu fyrirtæki landsins orðið alþjóðleg með einum eða öðrum hætti og fá meirihluta tekna sinna frá starfsemi erlendis.

Á tímum mikilla breytinga gerist það að sumir hlutir fylgjast að en aðrir sitja eftir. Það er til dæmis ánægjulegt að lífeyrissjóðir almennings hafa fylgt fjármálatekjunum eftir og hafa dafnað hratt. Lífeyrissjóðirnir í dag eru færri og stærri en þeir hafa verið nokkru sinni fyrr. Stækkun lífeyrissjóðanna er meðal annars hröð vegna þess að íslenska þjóðin er ung og nema nýfjárfestingar lífeyrissjóðanna árlega yfir 300 milljörðum króna. Þetta er upphæð sem er svipuð og öll fjárlög íslenska ríkisins.

Sagt er að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé eitt það öflugast í heimi en það er líka mikilvægt að það verði það öruggasta og að reglur um sjóðina stuðli að auknu lýðræði, gagnsæi og öryggi í fjárfestingum. Með því er hægt að gera sjóðina að sterku afli sem stuðluðu að auknu jafnvægi í íslensku efnahagslífi.

Íslenska krónan sat ekki eftir í ólgusjó síðustu fimm ára þrátt fyrir að umræðan um hana hafi get það. Á því tímabili varð íslenska krónan að vöru á alþjóðagjaldeyrismarkaði og þar er verðmæti hennar ákveðið í dag. Krónan er því aðeins íslensk að nafninu til og endurspeglar aðeins að litli leyti stöðu og styrk íslensks efnahags eða íslenskra fyrirtækja.

Í dag sneiða íslensk fyrirtæki hjá krónunni ef og þegar unnt er. Það eru aftur á móti verulegir hagsmunir í húfi fyrir íslenskan almenning og fjárfesta ef spákaupmenn á gjaldeyrismörkuðum ákveða að kasta krónunni. Í mínum huga er því undarlegt hvað hin pólitíska umræða um breyttar forsendur krónunnar er skammt á veg komin.

Að mínu mati er þar verk að vinna. Að sama skapi hefur valdið vonbrigðum hversu hægt hefur gengið hjá stjórnvöldum að gera fyrirtækjum kleift að skrá hlutafé sitt í evrum.

Í upphafi minntist ég á að árið sem nú er að líða hafi að mörgu leyti verið sögulegt. Vöxtur og alþjóðavæðing íslenska atvinnulífsins síðust fimm árin átti sér stað samhliða miklu framboði á lánsfé á alþjóðamörkuðum og hröðum uppgangi fjármálafyrirtækja á Vesturlöndum. Flest bendir til að sú uppsveifla hafi náð hámarki í haust og að þessi vetur marki kaflaskil.

Ég líkt og aðrir hef litla hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér og því ekki að gerast spámaður. Ég tel hins vegar að ef okkur tekst að finna farsæla framtíð fyrir lífeyrissjóðina og varanlega lausn fyrir almenning, fyrirtæki og fjárfesta í gjaldeyrismálum þá höfum við dregið úr líkum á sveiflur á alþjóðamörkuðum verði dýpri hér á landi en annarsstaðar. Með því gerum við Ísland að áhugaverðum þátttakanda í því alþjóðlega athafnalífi sem allir hér inni vita að er lykillinn að hagsæld og framförum.

Að lokum vil ég þakka Viðskiptablaðinu fyrir það framtak að velja mann ársins. Við sem erum í viðskiptalífinu erum keppnismenn í eðli okkar og þykkir gaman að vinna. Viðurkenning sem þessi hvetur til betri árangurs og aukins metnaðar.

Ég vil þakka sérstaklega samstarfsmönnum mínum hjá Novator, Actavis, Samson, Straumi Burðarási og föður mínum Björgólfi Guðmundssyni auk fjölda annarra sem hafa staðið með mér að fjárfestingum víða um heim í gegnum árin. Og ekki síst við ég þakka konunni minni fyrir allan sinn stuðning.

Að lokum vil ég nota tækifærið og óska öllum sem hér eru gæfuríks komandi árs.”