„Efst í huga er kannski Mongólía, land himinblámans. Ég held að mér hafi aldrei liðið eins langt frá öllu og öllum eins og þar,“ segir Anna Hjartardóttir, um hvaða land henni finnst eftirminnilegast. Anna Hjartardóttir býr í New York en hún vinnur hjá Sameinuðu þjóðunum og vegna vinnu sinnar ferðast hún um allan heim. „Það er svakalega fallegt í Mongólíu og mikil gestrisni. Landið minnir á sumum stöðum svolítið á Ísland en mér finnst alltaf heimilislegt að hafa ekki of mörg tré, þar er mikil auðn, eyðimerkur, falleg fjöll og mjög strjábýlt."

Í ferðinni til Mongólíu heimsótti Anna hirðingjafjölskyldur og fékk gerjaða kaplamjólk að drekka en Mongólar búa til allskonar afurðir úr mjólkinni og sögur herma að sumir baði meira að segja börnin sín upp úr henni: „Ég man eftir því að koma inn í tjaldið hjá einni fjölskyldunni sem var fullt af andstæðum. Kameldýr bundið úti við og öll fjölskyldan bjó saman í þessu eina fábrotna tjaldi, en svo var sólarsella á þakinu og flatskjár á veggnum. Svo drukkum vid þessa skritnu mjólk og töluðum um daglegt líf við hirðingjana á meðan Oasis hljómaði í bakgrunninn.“

Nánar er spjallað við Önnu um ferðalög hennar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Anna Hjartardóttir í Mongólíu.
Anna Hjartardóttir í Mongólíu.


Anna Hjartardóttir í Petra, Jórdaníu.
Anna Hjartardóttir í Petra, Jórdaníu.