Kristín Halldórsdóttir tók við sem mjólkurbússtjóri hjá Mjólkursamsölunni Akureyri þann 1. október síðastliðinn. Hún er fyrsta konan sem tekur við starfi mjólkurbússtjóra hér á Íslandi.

Kristín gerir þó ekki mikið úr því að vera fyrst kvenna til að taka við slíku starfi. „Jú, það er auðvitað skemmtilegt,“ segir hún aðspurð. „Vissulega er orðið tímabært að kona taki við keflinu. Það eru nú ekki margar konur starfandi í þessum geira, þetta er í raun karllægur iðnaður. Það er þó ekki hægt að kvarta yfir því að konur hafi átt erfitt uppdráttar í þessari grein. Við erum bara svo fáar sem höfum valið að starfa við þetta,“ segir Kristín.

Þegar talið berst að ólíkum mjólkurbúum víðsvegar um land segir Kristín unnið að nánari verkaskiptingu á milli ólíkra mjólkurbúa. Það er hluti af skipulagsbreytingum innan Mjólkursamsölunnar. Blaðamaður stenst þá ekki mátið:

Er mjólkin hér þá betri en fyrir sunnan?

„Auðvitað finnst okkur það,“ segir Kristín sposk. „Það er ef til vill pínulítill staðbundinn munur. Ég held þó að ekki sé hægt að segja að mjólkin sé betri eða verri hér en annars staðar. Nýverið hættum við til dæmis að pakka mjólk á tíu lítra kassa og fáum hana senda frá Reykjavík. Við höfum fengið talsverð viðbrögð svo sumir finna mun,“ segir Kristín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.