Fyrirtækin ANZA og VHL hafa sameinazt undir merkjum ANZA. Sameiningin tók gildi um síðustu mánaðamót. Allir starfsmenn VHL munu flytjast til ANZA og mynda þar nýtt svið sem sérhæfir sig í hönnun, þróun, rekstri og viðhaldi iðntölvukerfa og sjálfvirks búnaðar.

Á grundvelli samrunans býður ANZA heildstæða útvistunarþjónustu fyrir framleiðslufyrirtæki. Að sögn Guðna B. Guðnasonar framkvæmdastjóra ANZA gerir hin mikla reynsla og þekking sem nú er samankomin hjá ANZA fyrirtækinu kleift að bjóða alhliða rekstrarþjónustu sem nær til allra tölvukerfa, frá iðntölvum til gagnagrunna, netkerfa, netþjóna og vinnustöðva og allt til hópvinnu- og fjárhagskerfa segir í tilkynningu frá félaginu.

Kostir útvistunar tölvurekstrar fram yfir rekstur eigin tölvudeildar eru vel þekktir og eru þessir helstir:

· Fyrirtækjum veitist auðveldara að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni með því að útvista annarri starfsemi til sérhæfðra birgja.

· Bætt áætlanagerð vegna fyrirsjáanlegs kostnaðar.

· Færustu sérfræðingar aðgengilegir þegar og ef á þarf að halda.

· Sveigjanleiki og aðlögunarhæfni að rekstrinum hverju sinni.

Að auki njóta þau fyrirtæki sem velja að útvista rekstri tölvukerfa til ANZA eftirfarandi kosta sem byggjast á sérstöðu ANZA:

· Viðskiptavinir geta fengið alla þjónustu sem tengist rekstri tölvukerfa á einum stað, sem leiðir til lægri stjórnunarkostnaðar og hagræðingar í samskiptum við birgja.
· Þjónustan er hagkvæmari en þegar stökum þjónustuþáttum er útvistað til nokkurra þjónustuaðila.
· ANZA er óháð öllum vörumerkjum í vél- og hugbúnaði og því njóta viðskiptavinir óháðrar ráðgjafar um innkaup á búnaði.
· Rekstur ANZA er vottaður samkvæmt staðlinum BS 7799 (ISO 17799) um öryggi upplýsingakerfa.

Um ANZA

ANZA veitir fyrirtækjum alhliða þjónustu við rekstur upplýsingakerfa, allt frá rekstri stórra miðlægra kerfa til notendaþjónustu og reksturs útstöðva.

ANZA hf. varð til í júlí 2001 við samruna fjögurra fyrirtækja en þeirra stærst voru Álit hf. og Miðheimar ehf. ANZA hefur allt frá upphafi verið öflugt þjónustufyrirtæki með faglega tækniþekkingu og leggja eigendur þess mikinn metnað, vinnu og fjármagn í að efla og styrkja þá þjónustu sem fyrirtækið býður. ANZA er leiðandi á sínu sviði á Íslandi og hefur það að markmiði að vera það til frambúðar.

Viðskiptavinir ANZA eru fjölmargir, en meðal þeirra eru: Landssími Íslands, Alcan á Íslandi, Vegagerð Ríkisins, Landmælingar Íslands, Logos lögmannsþjónusta, Mjólkursamsalan í Reykjavík, Línuhönnun, Íslandsflug og Siglingastofnun Íslands.

ANZA hefur hlotið öryggisvottun samkvæmt hinum viðurkennda staðli BS 7799 um öryggi upplýsingakerfa.

Um VHL

Verkfræðistofa Hafliða Loftssonar var stofnuð árið 1986 og hefur boðið sérhæfða þjónustu á sviði tölvustýrðra framleiðslukerfa, iðntölva og þróunar rauntíma hugbúnaðarstýringa til íslenzkra og alþjóðlegra fyrirtækja. Meðal viðskiptavina VHL eru Alcan á Íslandi, Kringlan, Hydrogas í Noregi, Allen-Bradley, Sorpa, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Íslensk erfðagreining.