Á Apple-kynningunni í síðustu viku ákvað fyrirtækið í samvinnu við U2 að gefa notendum sínum nýja plötu hljómsveitarinnar - „Songs of Innocence“. Margir notendur kvörtuðu hins vegar yfir þessum aðskotahlut sem hafði verið niðurhalað á reikning þeirra að þeim forspurðum.

Eitthvað vafðist þó fyrir notendum hvernig ætti að eyða þessum óskapnaði af iTunes-reikningnum. Apple hefur hins vegar búið svo um hnútana að hægt er að fjarlægja plötuna af reikningi sínum með einum smelli.

„Einhverjir notendur spurðu hvernig þeir gætu fjarlægt „Songs of Innocence“ af reikningum sínum, svo við bjuggum til Soi remove til þess að gera þeim það auðveldara. Ef einhverjir notendur þurfa frekari aðstoð ættu þeir að tala við AppleCare,“ sagði Adam Howorth, talsmaður Apple, í samtali við BBC News.