Bandaríska tölvufyrirtækið Apple hefur keypt sænska hugbúnaðarfyrirtækið AlgoTrim. Fyrirtækið var stofnað árið 2005 og býr til hugbúnað fyrir farsíma.

Tímaritið PC Mag hefur eftir talsmanni Apple á vef sínum að fyrirtækið kaupi lítil tæknifyrirtæki annað slagið. Hann tjáir sig ekki nánar um málið. Fyrirtækið var keypt eftir krókaleiðum en Apple keypti það í gegnum fyrirtæki sitt Wedgewood Industries sem skráð er í Delaware.

Tímaritið segir að tækni AlgoTrim sé notuð í um 100 milljón farsímum. Þetta er fjarri því eina fyrirtækið sem Apple hefur eignast upp á síðkastið en frá síðustu mánaðamótum hefur það keypt þrjú önnur.