Samkvæmt skjölum sem breska dagblaðið The Guardian komst yfir vinnur Apple nú hörðum höndum að því að smíða sjálfkeyrandi bíl og leitar fyrirtækið nú að öruggum stöðum á San Francisco svæðinu til að prufukeyra bílana. Verkefnið virðist vera komið mun lengra en áður var talið.

Í maí síðastliðnum hittu fulltrúar frá Apple menn frá GoMentum stöðinni, sem áður var hersvæði á vegum bandaríska sjóhersins nálægt San Francisco. Nú er unnið að því að breyta stöðinni í svæði fyrir prufukeyrslu bíla og verður öryggisgæslan gríðarleg.

Samkvæmt gögnum Guardian vildi Frank Fearon, verkfræðingur hjá Apple, fá að vita hvenær svæðið væri laust og hvernig Apple þyrfti að haga hlutunum gagnvart öðrum sem gætu verið að prófa þar bíla.

GoMentum stöðin var notuð af sjóhernum í heimsstyrjöldinni síðari, en þar má samtals finna um 32 kílómetra af vegum. Stöðin er lokuð almenningi og vöktuð af bandaríska hernum.