Bandaríski tæknirisinn Apple hagnaðist meira á síðasta ársfjórðungi heldur en nokkuð annað fyrirtæki hefur gert á slíku tímabili í sögunni. Skilaði félagið þannig hagnaði upp á 18 milljarða Bandaríkjadali á tímabilinu, sem nær yfir október, nóvember og desember, en fjárhæðin jafngildir um 2.400 milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá þessu.

Ástæðan fyrir þessum ótrúlegu tölum er metsala fyrirtækisins á iPhone-snjallsímum sínum, en alls seldust 74,5 milljónir farsíma á tímabilinu. Tim Cook, forstjóri Apple, segir eftirspurnina eftir símunum stórkostlega en hún var mun meiri en sérfræðingar höfðu búist við. Hins vegar dróst sala á iPad-spjaldtölvum fyrirtækisins saman um 18% á milli ára.

Ljóst er að þessar afkomutölur Apple eru sögulegar, en fyrra hagnaðarmetið átti fyrirtækið ExxonMobil á öðrum ársfjórðungi 2012 þegar það hagnaðist um 15,9 milljarða dala.

Hlutabréf í Apple hækkuðu um 5% við tíðindin.