© Aðsend mynd (AÐSEND)

Applicon á Íslandi hefur samið við þýska hugbúnaðarrisann SAP um sölu og þjónustu á SuccessFactors, sem er einn fremsti hugbúnaðarframleiðandi mannauðslausna.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja, móðurfélagi Applicon, að heildarlausnir SuccessFactors felist m.a. í mannauðslausnum, hæfnisstjórnun, frammistöðustjórnun, ráðningum, fræðslulausn, greiningu, áætlanagerð. Lausnir fyrirtækisins eru seldar í skýi og því hagkvæmar í rekstri og viðhaldi. Greiningafyrirtækið Gartner segir að lausnir SuccessFactors, sem nú er í eigu SAP, sé meðal annars leiðandi á sviði hæfnisstjórnunar.

Í tilkynningunni er haft eftir Guðjóni Karli Þórissyni, sölu- og markaðsstjóra Applicon á Íslandi, að lausnir SuccessFactor standi öðrum hugbúnaði framar í lausnaframboði í hæfnisstjórnun. Þar sem hugbúnaðurinn er í eigu SAP tengist hann vel grunnkerfum þess. Fjölmörg fyrirtæki nýti ákveðnar kerfiseiningar SuccessFactors á móti SAP mannauðslausnum.