Applicon hefur verið valið einn af þremur samstarfsaðilum SAP á Norðurlöndum til þess að annast endursölu og þjónustu á lausnum Business Objects, sem er leiðandi í viðskiptagreind (Business Intelligence).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þá kemur fram að samstarf Applicon vegna Business Objects lausna nær einnig til Applicon í Bretlandi. Viðskiptagreind er verkfæri og aðferðir til þess að snúa margvíslegum gögnum yfir í aðgengilegar upplýsingar fyrir upplýsta ákvarðanatöku í fyrirtækjarekstri, samkvæmt tilkynningunni.

SAP, sem keypti Business Objects fyrr á þessu ári, ætlar að samþætta ákveðnar einingar fyrirtækjanna og stefnt er að því að sameina þau undir merkjum SAP á komandi mánuðum.

„Applicon hefur nú þegar á að skipa sérfræðingum í Business Objects lausnum og meðal annars unnið slík verkefni fyrir fjármálafyrirtækið De Lage Landen í Stokkhólmi. Hins vegar hyggst Applicon efla Business Objects þekkingu fyrirtækisins enn frekar með þátttöku í sérstöku verkefni á vegum SAP sem nefnist “go4gold”,“ segir í tilkynningunni.

„Viðskiptagreindarlausnir frá SAP eru leiðandi fyrir fjárhagsáætlanir og samstæðuskil. Þá er Business Objects leiðandi í viðskiptagreindarhugbúnaði. Með samruna þessara fyrirtækja verður að veruleika fyrirtæki með einstaka þekkingu og reynslu á þessu sviði,” segir Kristján Jóhannsson framkvæmdastjóri Applicon á Íslandi í tilkynningunni.

Hann segir að Applicon á Íslandi hafi markað sér þá stefnu að verða leiðandi í lausnum og þjónustu í viðskiptagreind hér á landi.

Applicon Holding ehf. er dótturfélag Nýherja og rekur fimm Applicon fyrirtæki, í Danmörku, Svíþjóð, Íslandi og Bretlandi. Um 220 starfsmenn starfa hjá Applicon fyrirtækjunum, þar af um 80 á Íslandi.