Eitt ár, upp á dag, er liðið frá því að Úrvalsvísitalan náði hápunkti sínum. Hún reis hátt, var 9.016 stig sem er hæsta lokagildi hennar  frá upphafi. Frá þeim tíma hefur hún lækkað um 54% og var vísitalan 4.163 stig við lok markaðar í dag.

Á þessum tíma hefur færeyska olíufélagið Atlantic Petroleum hækkað mest eða um 32%, líkt og sést á töflunni hér til hliðar, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Exista [ EXISTA ]  hefur fallið mest eða um 84,2%. Spron [ SPRON ] hefur fylgt þeirri þróun eftir, enda vegur Exista þungt í eignasafni sparisjóðsins. Þess  ber að geta að Eik banki [ FO-EIK ], á einnig stóra stöðu í Spron.

Það var 22. júní 2007 sem lausafjárkrísan gerði fyrst vart við sig, er bandaríski fjárfestingabankinn Bear Stearns tilkynnti að tveir sjóðir bankans, sem fjárfest höfðu í skuldabréfavafningum tengdum áhættusömum fasteignalánum, myndu engri ávöxtun skila, að sögn greiningardeildarinnar. Í kjölfarið fylgdu fleiri bandarískar  fjármálastofnanir tilkynntu um sambærileg vandræði, eftir vafasamar fjárfestingar af þessu tagi.

„Krísan vatt síðan upp á sig og breyttist fljótlega frá því að vera bandarísk undirmálslánakrísa í að verða alþjóðleg lausafjárkrísa enda vandræði af þessu tagi bráðsmitandi í alþjóðavæddu fjármálakerfi nútímans,“ segir Greining Glitnis.

Umfang lausafjárkrísunnar kom seint í dagsljósið

Áhugavert er að líta í baksýnisspegilinn á þessum tímamótum, að mati greiningardeildarinnar. Athygli vekur hversu  seint umfang og alvarleiki lausafjárkrísunnar kom raunverulega fram í dagsljósið.

„Lausafjárkrísan var frekar sein að festa land á Íslandsströndum. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hélt góðum dampi fram á haust og spiluðu uppgjör 2. ársfjórðungs stórt hlutverk í þeirri þróun enda voru þau velflest á eða yfir væntingum. Auk þess höfðu kaup Novators á Actavis jákvæð áhrif á íslenskan hlutabréfamarkað á þessum tíma en kaupin losuðu um mikið fjármagn sem leitaði sér nýs farvegar á íslenskum hlutabréfamarkaði.  Það var í raun ekki fyrr en í nóvember 2007 sem Úrvalsvísitalan fór að gefa eftir fyrir alvöru þrátt fyrir að óróa fór að gæta á mörkuðum mun fyrr,“ segir greiningardeildin.