ARA Engineering hefur breytt um nafn og mun hér eftir heita Norconsult að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Fyrsta júlí 2017 varð ARA Engineering ehf hluti af Norconsult AS, einni stærstu ráðgjafasamstæðu á norðurlöndunum.

Norconsult er ráðgjafarfyrirtæki í Noregi, alfarið í eigu starfsmanna og eru þeir 3250 talsins í 91 starfstöð um allan heim. Við sameiningu gafst starfsmönnum ARA Engineering möguleiki á að verða hluthafar í móðurfyrirtækinu Norconsult AS.

Norconsult ehf hefur sérhæft sig á sviði hönnunar raforkuflutningsmannvirkja hér á landi og víða erlendis. Má þar nefna flutningslínur á 60-500 kV, jarð- og sæstrengi á 60- 400 kV, og tengivirki á 60-400 kV spennustigi.

Árni Björn Jónasson stofnaði ARA Engineering árið 2010 ásamt Rolv Geir Knutsen og var Árni Björn framkvæmdastjóri fyrirtækisins þar til 1. júlí 2017 er Jóhannes Þorleiksson tók við sem framkvæmdastjóri. Jóhannes er raforkuverkfræðingur frá Háskóla Íslands og lauk hann mastersnámi frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg. Hann vann hjá Unitech Power Systems í Noregi áður en hann gerðist starfsmaður hjá ARA Engineering árið 2015. Árni Björn ásamt öðrum starfsmönnum sem margir hverjir voru frumkvöðlar í uppbyggingu íslensks raforkuiðnaðar munu áfram starfa hjá fyrirtækinu.