Mikill áhugi var fyrir kynningu á fjárfestinga- og eignarhaldsfélaginu Dagsbrún hf., sem rekur Og Vodafone og 365 prent- og ljósvakamiðla, í Kauphöllinni í Lundúnum (London Stock Exchange) í gær, þriðjudaginn 8. nóvember, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. "Góður árangur Fréttablaðsins vakti sérstaka athygli fundarmanna. Þeim fannst áhugavert að heyra að blaðinu sé dreift frítt inn á flest heimili á Íslandi með jafn góðum árangri og raun ber vitni," sagði Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Dagsbrúnar.

Eiríkur segir ljóst að fjölmiðlar og fjarskipti væru að renna saman í eitt félag í auknum mæli, það hefði gerst víða um heim. "Við teljum því ákjósanlegt að reka saman annars vegar prent- og ljósvakamiðla og fjarskiptafyrirtæki hins vegar. Við ætlum okkur að fjárfesta í samskonar fyrirtækjum erlendis og höfum nú þegar stigið fyrsta skrefið í slíkum fjárfestingum með kaupum á færeyska fjarskipafélaginu P/F Kall."

Kynningin fór fram á svonefndum "Capital Markets Day" sem var samstarfsverkefni íslensku Kauphallarinnar og Kauphallarinnar í Lundúnum. Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Dagsbrúnar, kynnti fyrir hópi fjárfesta og greiningaraðilum rekstur einstakra félaga í samstæðunni og áhuga Dagsbrúnar á fjárfestingum erlendis.