Um daginn sendi Síminn frá sér tilkynningu um að hann hefði ekki keypt ljósvakamiðla 365. Þetta gerðist eftir að blaðamaðurinn Eiríkur Jónsson hafði birt stutta frétt þess efnis og sagði hana styðjast við „áreiðanlegar heimildir“.

Símanum fannst þetta greinilega ekkert fyndið, minnti á að félagið væri skráð á hlutabréfamarkaði og tjáði sig því ekki um getgátur eða orðróm. Vegna fullyrðinga Eiríks þyrfti þó að taka af tvímælin: „Síminn hefur ekki keypt ljósvakamiðla 365. Viðræður standa ekki yfir.“

Gott og vel, það er skýrt, en útilokar svo sem ekki ýmislegt annað eins og Eiríkur hefur síðan gefið til kynna. Eftir sem áður er vart að efa að 365 er til sölu fyrir rétt verð.

* * *

Af öðrum fréttum úr Skaptahlíð: Starfsfólk Fréttablaðsins og Vísis sendi á þriðjudag frá sér yfirlýsingu til aðalstjórnenda 365, þar sem uppsögn Pjeturs Sigurðssonar, yfirmanns ljósmyndadeildar 365, var mótmælt og sögð grafa undan „faglegum grunni og trúverðugleika fréttastofunnar“.

Uppsögnin kom ekki upp úr engu, en Pjetur hafði fyrr á árinu kvartað undan einelti af hálfu Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra fyrirtækisins.

Þetta lítur auðvitað ekki nógu vel út fyrir stjórnendur 365 og segir ömurlega sögu af stemningunni í Skaptahlíð, en það er ofmælt að trúverðugleiki fréttastofunnar sé í beinni hættu. Hann byggist aðeins á því að miðlarnir segi sönn og tímanleg og fréttnæm og ófölsuð tíðindi. Hvort ritstjórinn sé týran eða fréttastjórinn sækó kemur því ekki við.

* * *

Annars er rétt að staldra við þetta orðalag um „áreiðanlegar heimildir“. Fjölmiðlarýnir sér hjá Fjölmiðlavakt Creditinfo að það hefur verið notað 99 sinnum í íslenskum fjölmiðlum í ár. Á sama tíma má 107 sinnum finna orðalagið „hefur heimildir fyrir“.

Stundum á slíkt vissulega við og það kemur óhjákvæmilega fyrir að segja þarf fréttir, sem ekki verða studdar nákvæmari heimildum en þarf samt að segja. Þá er fjölmiðillinn sjálfur heimildin, leggur nafn sitt að veði fyrir fréttinni, ábyrgist að hún sé rétt eftir höfð og að heimildarmaðurinn sé áreiðanlegur.

Það getur t.d. átt við þegar sagðar eru fréttir úr undirheimum, ýmsum vettvangi sem liggur í þagnargildi eða er bundinn trúnaði, að ógleymdum hinum reykfylltu bakherbergjum stjórnmálanna. Fleira mætti tína til.

Því verður þó ekki neitað að slíkar heimildir eru allt of oft bornar fyrir fréttum, án góðs tilefnis. Stundum ræðir þar um hreinasta hégóma og stundum um eitthvað, sem ætti að vera auðvelt að afla opinberrar stað¬ festingar á. Þá er erfitt að verjast grunsemdum um að leti blaðamanns sé um að kenna, hann hafi einfaldlega ekki nennt að leita almennilegra, nafngreindra, sjálfstæðra heimilda.

* * *

Þess eru raunar líka dæmi að fjölmiðlamenn nefni til slíkar heimildir, aðallega að því er virðist til þess að sveipa fréttina dulúð, gefa til kynna hvað hann sé rosalega vel tengdur eða ámóta.

Stundum er ræðir um „fréttir“ sem seinna reynast svo rangar og vitlausar, jafnvel lygi, að það er furða að miðlarnir biðjist ekki afsökunar og afhjúpi hinar fyrrverandi áreiðanlegu heimildir.

Auk leti og tímahraks er ástæðan ósjaldan misskilin tillitssemi við heimildamenn: Blaðamaður hringir í hafnarstjóra og spyr hvort skip hafi siglt niður bryggju. Jú, stýrimaðurinn hlýtur að hafa verið að skima eftir Pókemonum, en ekki hafa það eftir mér.
Það er auðvelt að falla í þá gryfju að verða við slíkri bón, en hafa samt eitthvað eftir „áreiðanlegri heimild“ en ónafngreindri. Strangt til tekið skiptir ekki öllu máli fyrir fréttina hvað hafnarstjórinn heitir, nafnið á skipinu skiptir meiru. Af hverju að vera að baka heimildarmanninum óþægindi að óþörfu?

En þá gleymist að það er beinlínis hlutverk fjölmiðla að grafast fyrir um atburði, leita vitnisburðar og fá opinberar yfirlýsingar. Það er nauðsynlegt bæði fyrir fréttir, fjölmiðla og almenning að það allt liggi fyrir og þar á meðal er hver sagði hvað. Það er allt of algengt að íslenskir fjölmiðlar hafi eitthvað eftir fyrirtækum eða stofnunum en ekki fólkinu sem sagði eftir höfð orð. Þar að baki liggur að hluta til hefð, en það er vond hefð og hana þarf að afleggja.

Auðvitað fá fjölmiðlar ótal ábendingar og sögur í skjóli nafnleyndar og þannig þarf það að vera. En í framhaldinu er það hlutverk þeirra að grafast fyrir um hvernig í málunum liggur, hverju má slá föstu og hvað sé skoðun, en við það allt er það algert undirstöðuatriði að gera sér ekki ónafngreindar heimildir að góðu, nema annað sé ómögulegt. Og þannig er það sjaldnast.