Matsfyrirtækið Standard & Poor hefur gefið út að ríkissjóður Argentínu er kominn í greiðsluþrot eftir að samningaviðræður við kröfuhafa báru ekki árangur í gær. Argentína hafði fengið frest hjá bandarískum dómstólum til dagsins í dag til að semja um 1,3 milljarða bandaríkjadala skuld. Frá þessu er sagt á vef Bloomberg . Nú snýst spurningin einungis um það hvort kröfuhafar, sem ríkissjóður Argentínu skuldar alls um 29 milljarða dala, muni fara fram á greiðslu strax.

Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, segir í samtali við RÚV að afleiðingar greiðslufallsins verði ekki eins alvarlegar og þegar Argentína varð gjaldþrota fyrir 13 árum síðan. Argentína hafi ekki haft aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum í lengri tíma en ef þetta hefði komið fyrir ríki sem treysti á ný erlend lán þá hefði staðan verið öðruvísi.

Hann segir jafnframt að staðan á Íslandi og Argentínu sé ólík, þrátt fyrir að kröfuhafar eigi í báðum tilvikum í hlut. Ástæðan sé sú að í tilfelli Argentínu sé deilt um skuldir ríkisins en ekki þrotabú einkafyrirtækja eins og á Íslandi.