Arion banki hefur fengið lánshæfismat frá lánshæfismatsfyrirtækinu Reitun hf.. Lánshæfiseinkunn Arion banka er B+ og fá sértryggð skuldabréf bankans einkunnina A sem er sama lánshæfiseinkunn og Reitun veitir íslenska ríkinu.

Í samantekt á lánshæfismatinu segir að erfitt rekstrarumhverfi hafi einkennt rekstur Arion banka frá stofnun 2008. Línur séu þó smám saman að skýrast varðandi efnahagsreikninginn og þá sérstaklega lánabókina.

Reitun segir tiltölulega hátt lánshæfismat byggja á sterku eiginfjárhlutfalli bankans, sterku lausafjárhlutfalli og sterkri markaðsstöðu ásamt utanaðkomandi stuðningi Seðlabankans ef til þess kæmi. Það sem komi í veg fyrir enn hærri einkunn sé sveiflukennt rekstrarumhverfi en gjaldeyrishöft auk síbreytilegs skatta- og lagaumhverfis auki óvissuna í framtíðarrekstrarhorfum bankans.

Meðal helstu ógnana sem nefndar eru í greiningunni er einsleit fjármögnun þar sem bankinn treysti of mikið á innlán. Það fari þó batnandi. Þá er bent á samþjappað eignarhald og möguleika á sliti á milli viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi sem áhyggjuefni.

Lánshæfismatsfyrirtækið Reitun hefur nú starfað í rúm tvö ár og hefur fyrirtækið unnið lánshæfismat á nokkrum skuldabréfaútgefendum sem gerð hafa verið opinber.