Fyrir utan bókhaldsgreiðslur ríkissjóðs til sjálfs síns er Arion banki hæsti greiðandi opinberra gjalda lögaðila á árinu, en hann greiddi rúmlega 10,5 milljarða króna. Næstur kemur Landsbankinn með rúma 10,2 milljarða og loks Íslandsbanki með 8,8 milljarða rúma, en báðir síðarnefndu bankarnir eru eins og kunnugt er í eigu ríkisins.

Þar á eftir kemur svo Eignasafn Seðlabanka Íslands, sem jafnframt er í eigu ríkisins, með 7 milljarða og loks Reykjavíkurborg með 3,5 milljarða. Enn eitt ríkisfyrirtækið kemur svo þar á eftir, það er Isavia ohf, með 1,7 milljarða, en loks á eftir því raða sér svo Icelandair Group og Icelandair ehf, með annars vegar tæpa 1,7 milljarða og hins vegar tæplega 1,5 milljarða.

Síðan koma þrjú sjávarútvegsfyrirtæki í röð, Samherji með 1,3 milljarða, HB Grandi með 1,25 milljarða og Síldarvinnslan með tæplega 1,1 milljarð.

Norðurál Grundartanga greiðir síðan 1,05 milljarð, en það er eina álfyrirtækið á listanum, en Orkuveita Reykjavíkur kemur þar á eftir með rétt yfir milljarð króna. Önnur fyrirtæki greiða minna, en í næstu sætum má nefna Símann, Haga og Bláa lónið.